Mindful ganga og vírus

Seint í febrúar áskotnaðist auka 20 mínútur sem ég nýtti til að prófa mindful göngu. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt eða lesið um það áður en það hlýtur að vera thing. Ég hef heyrt og lesið um mindful being og mindful eating. Í augnablikinu man ég ekki íslensku heitin yfir þessi hugtök. Í nærumhverfi mínu eru núvitund og mindfulness einmitt áberandi hugtök. Ein besta vinkona mín er jógakennari og vegan. Önnur er mikill perluaðdáandi. Pabbi garðyrkjufræðingur, jógakennari að mennt og alltaf tilbúinn að fræða fólk um það sem hann hefur lesið.

Mindfulness gangan mín var þannig að ég setti heyrnartólin mín ekki í eyrun og hlustaði frekar á marrið í snjónum við næstum hvert fótatak, stundum var snjórinn svo troðinn að það heyrðist lítið sem ekkert. Ég hlustaði á þungan nið í morgunumferðinni, venjulega get ég ekki lýst þeim ósköpum öðruvísi en helvítis hljóðmengun því ég er stundum viðkvæm fyrir hljóðum, verandi á einhverfurófinu og allt það. Fyrir mér eru hljóð stundum áreiti og ekki hjálpar að vera líka með mikinn athyglisbrest því minnsta hljóð, ljós eða hreyfing getur tekið athyglina frá mér og beint henni eitthvað annað og það versta er að ég geri mér oft ekki grein fyrir því, tek ekki eftir því að athyglin er einhvers staðar þar sem hún á ekki að vera fyrr en stundakornum síðar. Stundum líða bara örfá sekúndubrot, stundum gleymi ég því alfarið hvað ég var að gera og fer að gera eitthvað annað og svo næst eitthvað allt annað og áður en ég veit af hef ég á herðum mér ákveðið magn af ókláruðum verkefnum. Þegar ég lít yfir þau sé ég ekki alltaf mörg lítil og auðleysanleg verkefni heldur eitt stórt klusterfuck og tilefni til að kalla á kunningja minn Herra Kvíðinn sem kemur alltaf undir eins. Alveg sama hvar hann er eða hvað hann er að gera, það er hreinlega eins og ég skipti hann meira máli en allt annað í heiminum. Hann kemur, sest hjá mér, talar við mig, hlustar á mig upp að vissu marki og sannfærir mig svo um að heimurinn sé í rauninni að fara til andskotans. Það merkilega er að hann kemur alltaf með skotheld rök eins og þegar hann benti mér á að ef ég færi ekki í ræktina á hverjum degi til að hlaupa helst 10 kílómetra á 14 kílómetra meðalhraða að þá mundi ég vera töluvert líklegri til að háma í mig óhóflega miklu magni af rjómaís með heitri karamellusósu öll kvöld. Annað mjög gott dæmi er þegar hann sagði mér þarna um árið að kennarinn mundi kasta í mig brennandi eldvörpum ef ég kæmi of seint, jafnvel þó ég kæmi bara 5 mínútum of seint. Það skipti ekki máli, seint er alltaf seint. Eins og blár er alltaf blár, alveg sama hvers konar blár hann er. Að koma of seint er dónalegt, þá er ég ekki að virða tíma annarra með því að láta þá bíða eða eins og þegar maður mætir of seint í tíma, þá er maður að trufla. Fyrst með því að banka á hurðina, nemendur með athyglisbrest myndu missa einbeitinguna. Næst með því að opna hurðina, láta í sér heyra þegar maður notar orðin ,,afsakið hvað ég kem seint", svo þegar maður treður sér bakvið aðra til að komast að eina lausa sætinu, þegar maður fer úr yfirhöfninni og svo framvegis. Það er alltaf best að mæta snemma eða mæta ekki. Það segir sig sjálft.

Nema hvað, svo lærði ég að Herra Kvíðinn var ekkert að gera mér neinn greiða og að allt sem hann sagði mér væri í raun og veru ekkert sérstaklega satt. Auðvitað vill hann vel, þetta er bara það sem hann kann og það sem hann trúir í einlægni. Annað væri frekar kaldhæðnislegt.

Það var um svipað leiti sem ég heyrði af Fröken Núvitund og litla gæludýrinu hennar sem hún kallar Mindfulness. Eins og með alla fræga og vel þekkta einstaklinga byrjaði ég á því að vinna heimavinnuna. Cyberstalka þau, lesa allt sem ég fann, hvaða persónuleika þau höfðu, áhugamál, eftirlætis mat og margt fleira. Eftir áratuga erfiðisvinnu, strit og púl sem fylgir þeim lífsstíl að lifa án þeirra varð ég svo heppin að fá að kynnast þessu tvíeyki. Þau koma ekki alltaf þegar ég þarf á þeim að halda. Ég þarf yfirleitt að kalla á hana og stundum kemur gæludýrið með, stundum ekki. Stundum einbeiti ég mér meira að því en henni. Það er allur gangur á því. Í fyrstu þurfti ég að hafa mikið fyrir því að ná tali af Fröken Núvitund, ég reyndi margoft að kalla á hana, hringja (hún er með númerið 55-núvitund), ég sendi henni tölvupóst og jafnvel skrifaði henni gamaldags bréf. Smátt og smátt náði ég sambandi við hana og eftir því sem tíminn leið gekk það alltaf betur og betur. Seinna meir urðum við ágætis vinkonur. En eins og með hverja aðra vináttu þá þarf að rækta þetta samband.


Núna þegar kórónavírusinn heldur öllum heiminum í heljargreipum finnst mér ég knúin til að líta öðruvísi á hluti og aðstæður. Það er ekkert sjálfsagt lengur. Kannski er það bara tímaspuesmál hvenær ég þurfi að vera í sóttkví í tvær vikur, kannski þarf ég að fara í einangrun í einhverja mánuði, kannski lengur. Kannski slepp ég alveg við að kynnast þessarri óþolandi vinsælu veiru. Ég veit ekkert í raun og veru. Dagurinn í dag er sá eini sem ég hef. Gærdagurinn er búinn, liðinn og farinn. Hann kemur ekki aftur, alveg sama hversu góður hann var. Dagurinn á morgun bíður kannski eftir mér með eitthvað alveg óvænt. Kannski vakna ég hress, kannski hringir einhver í mig, kannski dettur mér í hug að hringja í einhvern. Kannski breytast plönin mín. Kannski ekki. Það er ákveðinn léttir sem fylgir því að hugsa bara um einn dag í einu. Jú jú, því fylgir einhver óvissa en hún er í framtíðinni, á morgun eða hinn. Það er engin óvissa núna. Núna ligg ég bara uppí rúmi að hlusta á Mannstu ekki eftir mér með Stuðmönnum og skrifa niður mínar einföldu og barnalegu hugsanir.

  • Pinterest
  • Instagram
  • facebook-square